Tilgangur húsnæðissamvinnufélaga er að eiga og reka hagkvæmar íbúðir af mismunandi stærðum og gerðum - svokallaðar búsetuíbúðir. Búsetuíbúðir eru eignaríbúðir samvinnufélags en ekki leiguíbúðir í venjulegum skilningi. Félagsmenn einir hafa rétt til að sækja um íbúðir. Félagið starfar eftir lögum nr.66/2003.
Á árinu 2016 voru gerðar talsverðar breytingar á lagaramma húsnæðissamvinnufélaga.
Búfesti hsf á og rekur íbúðir á kostnaðarverði. Með greiðslu 10% stofnverðs eða markaðsverðs sem búseturéttar - eignast félagsmenn aðgang að íbúðum félagsins. Mánaðargjald er svipað mjög hóflegri leigu. Búsetar í almennum íbúðum eiga rétt á vaxtabótum í samræmi við almennar reglur á hverjum tíma og búsetar í félagslegum búsetuíbúðum eiga rétt á húsaleigubótum eins og þær ákvarðast á hverju tímabili.
Það er staðfest stefna félagsins að fjölga íbúðum á Akureyri og í Norðurþingi - eftir því sem hagkvæmt reynist og samvinna tekst um við skipulagsyfirvöld. Einnig er staðfestur áhugi fleiri stöðum á Norðausturlandi á því að félagið eða önnur húsnæðissamvinnufélög taki til starfa á fleiri stöðum.
Félagið leitar að sjálfsögðu allra leiða til samstarfs við sveitarfélög og aðila sem vilja leggja að mörkum til að skapa jafnvægisforsendur á húsnæðismarkaði á starfssvæðinu með "nýju framboði hagkvæmra íbúða."
Markmið þess samstarfs beinist að því að auka framboð leigu- og búseturéttaríbúða á kostnaðarverði - - um leið og kappkostað er að ná niður framkvæmdakostnaði og halda rekstrarkostnaði í ásættanlegu horfi.
Jafnhliða byggingu leiguíbúða fyrir lágtekjufólk er það stefna félagsins að byggja nokkurn fjölda íbúða fyrir almenning án þess að flokka íbúana á grundvelli eigna eða fjölskyldugerðar við upphaf búsetunnar.
Búfesti hsf hefur boðið Félagi Eldri Borgara á Akureyri upp á samstarf um byggingu leigu- og búseturéttaríbúða sem félagsmenn hefðu forgang að.
Búfesti hsf hefur um skeið eingöngu boðið upp á 10% búseturéttarhlut. Með breyttum samþykktum er ekkert því til fyrirstöðu að bjóða félagsmönnum val um þetta hlutfall frá 5% - og að 25% (eða jafnvel 30%) af verðmæti viðkomandi íbúðar.